Söngkeppnin er gott efni og misjafnt eins og allt

Söngkeppni framhaldsskólanna fór fram í Íþróttahöllinni á Akureyri í gær og keppandi Verslunarskóla Íslands vann. Ég hef séð í morgun að fjölmargir hafa bloggað um keppnina og verið misjafnlega ánægðir með úrslitin og jafnvel farið niðrandi orðum um keppendurna. Það þykir mér bæði ljótt og ósanngjarnt. Þetta eru sigurvegarar í söngkeppni, hver í sínum skóla, og það þarf töluverða hetju til að standa í fyrsta sinni á sviði framan við 2000 áheyrendur og það í beinni útsendingu í sjónvarpi, þar sem ekki er hægt að stoppa eða endurtaka ef eitthvað fer úrskeiðis, eins og alltaf getur gerst.

Auðvitað er áramunur á Söngkeppni framhaldsskólanna. Í keppninni í fyrra voru til dæmis áberandi margir sterkir söngvarar og í efstu sætunum voru þar til dæmis þeir Eyþór Ingi og Arnar Már, sem bera af í söngkeppni Bubba Morthens þessar vikurnar. Slíkir hæfileikar eru ekki alltaf í boði, en hins vegar aldrei skortur á fólki sem leggur metnað sinn í að gera vel, syngja vel, jafnvel eigin lög eða splunkunýjar útsetningar. Mér finnst það til dæmis alltaf miklu skemmtilegra en þegar reynt er að enduróma söng einhvers annars. Og mér þótti gaman að hlusta á góð atriði frá skólunum hér um slóðir, MA, VMA og Laugum.

Hlutverk kynnis er mikilvægt í svona keppni en í gær fannst mér kynnirinn algerlega óhæfur. Í stað þess að tengja saman atriðin og segja áheyrendum frá því hverjir keppendur væru og hvað þeir væru að gera var hann upptekinn af því að draga athygli áheyranda að sjálfum sér, stundum með því að tala háðulega um keppendur, sem er bannað. Og kynnir sem er að tala við 2000 áheyrendur í sal og hálfa þjóðina heima má ekki segja endalaust herrðu og héddna og hlæja að sjálfum sér. 

Söngkeppnin er keppni sem tekur til allra framhaldsskóla á landinu. Hún er að því leyti sambærileg Gettu betur og Morfís að allir skólarnir hafa jafnan þátttökurétt, en að því leyti frábrugðin að í Gettu betur og Morfís er útsláttarfyrirkomulag en í söngkeppninni keppa allir í einu. Auðvitað er það talsvert tímafrekt, það tók um það bil tvo og hálfan tíma í gær og var sífellt sundur slitið af auglýsingum. Það hafa iðulega verið lengri útsendingar og leiðinlegar að auki í sjónvarpi.

Ég veit að það kom til tals varðandi keppnina í gær að hafa forkeppni fyrr um daginn og úrslitakeppni um kvöldið þar sem um það bil helmingur keppenda kæmi fram. Mig minnir að sú aðferð hafi verið reynd einhverju sinni þegar keppnin fór fram syðra, en mistókst herfilega því þá var keppt fyrir hálftómu húsi. Þeir sem áttu ekki lengur keppendur á sviði fóru burt. Krakkarnir koma til að styðja sitt fólk, það er ósköp eðlilegt. Mér finnst engin ástæða til að höggva þessa söngkeppni í spað. Ungt fólk er líka íslensk þjóð, líka útvarps- og sjónvarpsnotendur, og reyndar gera fjölmiðlarnir alltof lítið til þess að leyfa ljósum þeirra sem erfa landið að skína. Íslensk ungmenni ættu að vera miklu meira áberandi í dagskránni.

Það er hins vegar ekkert náttúrulögmál að Söngkeppni framhaldsskólanna sé í beinni útsendingu í sjónvarpi. Það er vel hægt að sýna þetta með öðru móti. Enda þótt keppnin fari fram á einum degi væri hægt að sýna hana á þremur kvöldum. Forkeppni gæti verið milli 15-20 skóla í tveimur riðlum og úrslitakeppni milli 20 skóla um kvöldið. Fólk ætti að geta horft á það eins og það horfir á íþróttaleiki, Óskarsafhendingar og jafnvel hestamannamót löngu eftir að þetta á sér stað í veruleikanum.

Ég vona að söngkeppni framhaldsskólanna haldi áfram. Það væri þá líka gaman að færa hana á ný í hendur nemenda sjálfra að einhverju leyti í stað þess að láta einhver einkafyrirtæki úti í bæ reka þetta eins og hvert annað fyrirtæki. Ég veit að færri komu á keppnina núna en vildu vegna verðlags á aðgöngumiðum. Það er dálítið leiðinlegt. Söngkeppni framhaldsskólanna er nefnilega eitt af þremur stórmótum íslenskra framhaldsskólanema, ásamt Gettu betur og Morfís.


mbl.is Verslósigur í söngkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo innilega hjartanlega 100% sammála þér með kynninn. Gjörsamlega óhæfur.. held ég hafi mute-að greyið u.þ.b. 10 sinnum.

Björg Eyþórsdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 13:01

2 Smámynd: Örlygur Hnefill Örlygsson

Ég er innilega sammála þér um það að það ætti að fela nemendum framhaldsskólanna að sjá um þessa keppni. Ég held að ég hafi aldrei lært jafn mikið á jafn skömmum tíma og þegar ég hélt þessa keppni ásamt fleirum um árið og við þá öll í framhaldsskólum.

Örlygur Hnefill Örlygsson, 26.4.2008 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband