Tími til kominn

Það var sannarlega tími til kominn að frönsk forsetafrú gagnrýndi páfa, fyrst hinar gerðu það því miður ekki. Stórhættuleg afturhaldssemi þessa þýska páfa stefnir lífi og menningu Afríkuþjóða í hreina glötun, því þrátt fyrir allt og allt er enn til fólk sem trúir orðum manns sem gegnir páfaembætti. Þessi Benedikt, eða hvað hann kann annars að vera kallaður, er hættulegur maður og fjandsamlegur mannlífi.
mbl.is Gagnrýni Bruni einsdæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söngkeppnin er gott efni og misjafnt eins og allt

Söngkeppni framhaldsskólanna fór fram í Íþróttahöllinni á Akureyri í gær og keppandi Verslunarskóla Íslands vann. Ég hef séð í morgun að fjölmargir hafa bloggað um keppnina og verið misjafnlega ánægðir með úrslitin og jafnvel farið niðrandi orðum um keppendurna. Það þykir mér bæði ljótt og ósanngjarnt. Þetta eru sigurvegarar í söngkeppni, hver í sínum skóla, og það þarf töluverða hetju til að standa í fyrsta sinni á sviði framan við 2000 áheyrendur og það í beinni útsendingu í sjónvarpi, þar sem ekki er hægt að stoppa eða endurtaka ef eitthvað fer úrskeiðis, eins og alltaf getur gerst.

Auðvitað er áramunur á Söngkeppni framhaldsskólanna. Í keppninni í fyrra voru til dæmis áberandi margir sterkir söngvarar og í efstu sætunum voru þar til dæmis þeir Eyþór Ingi og Arnar Már, sem bera af í söngkeppni Bubba Morthens þessar vikurnar. Slíkir hæfileikar eru ekki alltaf í boði, en hins vegar aldrei skortur á fólki sem leggur metnað sinn í að gera vel, syngja vel, jafnvel eigin lög eða splunkunýjar útsetningar. Mér finnst það til dæmis alltaf miklu skemmtilegra en þegar reynt er að enduróma söng einhvers annars. Og mér þótti gaman að hlusta á góð atriði frá skólunum hér um slóðir, MA, VMA og Laugum.

Hlutverk kynnis er mikilvægt í svona keppni en í gær fannst mér kynnirinn algerlega óhæfur. Í stað þess að tengja saman atriðin og segja áheyrendum frá því hverjir keppendur væru og hvað þeir væru að gera var hann upptekinn af því að draga athygli áheyranda að sjálfum sér, stundum með því að tala háðulega um keppendur, sem er bannað. Og kynnir sem er að tala við 2000 áheyrendur í sal og hálfa þjóðina heima má ekki segja endalaust herrðu og héddna og hlæja að sjálfum sér. 

Söngkeppnin er keppni sem tekur til allra framhaldsskóla á landinu. Hún er að því leyti sambærileg Gettu betur og Morfís að allir skólarnir hafa jafnan þátttökurétt, en að því leyti frábrugðin að í Gettu betur og Morfís er útsláttarfyrirkomulag en í söngkeppninni keppa allir í einu. Auðvitað er það talsvert tímafrekt, það tók um það bil tvo og hálfan tíma í gær og var sífellt sundur slitið af auglýsingum. Það hafa iðulega verið lengri útsendingar og leiðinlegar að auki í sjónvarpi.

Ég veit að það kom til tals varðandi keppnina í gær að hafa forkeppni fyrr um daginn og úrslitakeppni um kvöldið þar sem um það bil helmingur keppenda kæmi fram. Mig minnir að sú aðferð hafi verið reynd einhverju sinni þegar keppnin fór fram syðra, en mistókst herfilega því þá var keppt fyrir hálftómu húsi. Þeir sem áttu ekki lengur keppendur á sviði fóru burt. Krakkarnir koma til að styðja sitt fólk, það er ósköp eðlilegt. Mér finnst engin ástæða til að höggva þessa söngkeppni í spað. Ungt fólk er líka íslensk þjóð, líka útvarps- og sjónvarpsnotendur, og reyndar gera fjölmiðlarnir alltof lítið til þess að leyfa ljósum þeirra sem erfa landið að skína. Íslensk ungmenni ættu að vera miklu meira áberandi í dagskránni.

Það er hins vegar ekkert náttúrulögmál að Söngkeppni framhaldsskólanna sé í beinni útsendingu í sjónvarpi. Það er vel hægt að sýna þetta með öðru móti. Enda þótt keppnin fari fram á einum degi væri hægt að sýna hana á þremur kvöldum. Forkeppni gæti verið milli 15-20 skóla í tveimur riðlum og úrslitakeppni milli 20 skóla um kvöldið. Fólk ætti að geta horft á það eins og það horfir á íþróttaleiki, Óskarsafhendingar og jafnvel hestamannamót löngu eftir að þetta á sér stað í veruleikanum.

Ég vona að söngkeppni framhaldsskólanna haldi áfram. Það væri þá líka gaman að færa hana á ný í hendur nemenda sjálfra að einhverju leyti í stað þess að láta einhver einkafyrirtæki úti í bæ reka þetta eins og hvert annað fyrirtæki. Ég veit að færri komu á keppnina núna en vildu vegna verðlags á aðgöngumiðum. Það er dálítið leiðinlegt. Söngkeppni framhaldsskólanna er nefnilega eitt af þremur stórmótum íslenskra framhaldsskólanema, ásamt Gettu betur og Morfís.


mbl.is Verslósigur í söngkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

La Gioconda

Þetta er afskaplega ómerkileg frétt, þykir mér. Málverkið af Monu Lísu hefur mjög lengi gengið undir nafninu La Gioconda. Mona Lisa er eins konar gælunafn á því. Þess vegna er niðurstaða þessarar rannsóknar ekki merkileg.

Til háborinnar skammar

Það er til háborinnar skammar að stjórnvöld skuli gefa út hátíðarútgáfu af svokölluðum fjárlögum og hreykja sér af tekjuafgangi en tími á sama tíma ekki að boprga lágmarkskostnað við grunnþjónustu borganna, svelta heilbrigðiskerfið og menntakerfið að hættumörkum. Þetta er ástand eins og hjá bláfátæku þriðja heims ríki. Það er grátlegt að þurfa að horfa upp á hugmyndir sem þessar - að það skuli vera sérhlunnindi fáara að njóta sjúkra- og heilbrigðisþjónustu.
Hversu mikið kostar mannslíf? Og hverjir kusu þetta fólk yfir sig
mbl.is Neyðarbíll verði án læknis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sinn er siður...

Í Belgíu er þetta auglýsingaefni en á Íslandi stórfengleg list. Hér á landi fá menn milljónir í verðlaun fyrir svona verknað. Í haust fékk einhver svokallaður listamaður nokkrar milljónir í Sjónlistarverðlaun á Akureyri fyrir að liggja nakinn á gólfi og míga upp í sig. Þetta var kallað myndlist.
mbl.is Sprænir í tebolla til að auglýsa London
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að mynda stjórn

Ég hef fengist talsvert við að taka ljósmyndir, lenti fyrir fáum árum í þriðju myndadellu ævinnar og hún stendur enn. Auðvitað er gaman að taka myndir af atburðum og það gera almennilegir ljósmyndarar oft og iðulega. En sumir myndatökumenn, sérstaklega þeir sem vinna hjá þessum örfáu pappírsfjölmiðlum á Íslandi, sjást ekki alltaf fyrir. Gassagangurinn í þeim er núorðið oft slíkur að þeir taka mestalla athygli frá því sem er fréttnæmt en stinga sjálfum sér í sviðsljósið. Það finnst mér hvorki rétt né kurteislegt.

Mig langar til að benda á eitt einfalt dæmi. Í Sjónvarpinu var um daginn svolítil frétt um það að Geir Haarde hefði farið til Bessastaða og forseti landsins hefði falið honum að reyna að mynda ríkisstjórn. Þetta er í sjálfu sér fréttnæmt þótt allir hafi vitað hvað til stóð. En takið eftir: Á meðan forsetinn svaraði erindinu í áheyrn fréttamanna, í atriði sem tók nálægt 2 mínútum, taldi ég meira en 200 myndavélasmelli. Kliðurinn í myndavélunum var slíkur að það var eins og upptakan væri í vélasal og mál þess sem talaði varð mun óskýrara en ef hann hefði fengið að mæla það í þögn.

Mér finnst sjálfsögð kurteisi og tillitssemi af ljósmyndurum að gæta hófs, forðast að trufla, taka myndir og halda sig svo til hlés, nema eitthvert stórmerkilegt andartak komi upp á. Reyndar væri eðlilegt að þegar gefnar eru yfirlýsingar biðji embættismenn eins og þessir um að myndatökumenn láti vera að smella rétt á meðan tilkynning er lesin - rétt eins og fólk slekkur á farsímum til að trufla ekki athafnir. Og þegar á allt er litið og hversu mikið sem myndatökumenn smella þá eru það ekki þeir sem mynda stjórnBrosandi Þeir eru bara áhorfendur.

SJÁLFSTÆÐ VINNUBRÖGÐ FJÓLMIÐLA

Mig langar til að birta hér tvær fréttir, hvora af sínum vefmiðlinum nú í kvöld, en um sama atvik. Á Vísi (visir.is) segir:

Kajakræðari fundinn eftir mikla leit

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í kvöld til leitar að erlendum kajakræðara sem saknað var við austari Jökulsá. Síðast sást til hans á sjötta tímanum í dag en hann hugðist róa niður ánna. Þegar hann var ekki kominn niður ánna um kvöldmatarleytið var farið að grennslast fyrir um afdrif hans. Maðurinn kom í leitirnar klukkan 21:30 í kvöld, heill á húfi er hann gekk fram á björgunarsveit.

Miklar leysingar eru á svæðinu og vatnavöxtur í ánni. Maðurinn hafði velt bátnum og týnt honum en náð að komast af sjálfsdáðum á þurrt.

Þegar hann fannst voru um 60 manns frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar við leit auk þess sem búið var að kalla út lið frá nærliggjandi svæðum sem og þyrlu Landhelgisgæslunnar.

 

Á Morgunblaðsvefnum (mbl.is) er svo sagt frá:

Kajakræðari fannst eftir leit

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í kvöld til leitar að erlendum kajakræðara sem saknað var við austari Jökulsá. Síðast sást til hans á sjötta tímanum í dag en hann hugðist róa niður ánna. Þegar hann var ekki kominn niður ánna um kvöldmatarleytið var farið að grennslast fyrir um afdrif hans. Hann fannst heill á húfi um klukkan 21:30 í kvöld.

Maðurinn kom í leitirnar klukkan 21:30 í kvöld, heill á húfi er hann gekk fram á björgunarsveit. Hafði hann velt bátnum og týnt honum en náð að komast af sjálfsdáðum á þurrt.

Þegar hann fannst voru um 60 manns frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar við leit auk þess sem búið var að kalla út lið frá nærliggjandi svæðum sem og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Miklar leysingar eru á svæðinu og vatnavöxtur í ánni.

Nú lítur út fyrir að þetta sé verk eins höfundar, ein lítil málsgrein er færð til og greinaskil á einum stað flutt. Og þarna koma nákvæmlega sömu vitleysurnar fyrir, áin er vitlaust beygð og engu líkara en maðurinn  hafi fundið björgunarsveit, þar sem hann gekk fram á hana, en hún gekk ekki fram á hann. Sem og er merkingarlaust, þýðir bara og, sennilega misskilningur eða ruglingur við svo og, sem þýðir eiginlega og einnig, eða eitthvað því líkt. Þannig má tína til eitt og annað. Svo er þetta bara afskaplega lasburða texti og máttleysislegur. En dálítið undarlegt að þetta skuli vera svona óskaplega eins hjá þessum vefmiðlum sem sagðir eru í samkeppni. Skyldu þeir hafa sameiginlega samkeppnisfréttamenn?


Dónalæti í fjölmiðlum

Mér þykir skelfilegt að nú skuli vera hafin ein kosningahríðin enn í útvarpi og sjónvarpi. Hvar sem maður opnar þessa fjölmiðla um eða eftir vinnulok á daginn og fram yfir kvöldmat er ekki vært fyrir þessu. Stjórnmálaumræða er út af fyrir sig ekki vond eða leiðinleg, en það sem nú tíðkast á Íslandi er engin umræða um stjórnmál heldur er ævinlega reynt að halda uppi hanaslag og magna upp einhver læti og til þess eru oft notuð ómerkileg aukaatriði sem koma stjórnmálaumræðu lítt eða ekki við. 

 

Verst af öllu er þó hversu vanmegnugir tíðindamenn og þáttastjórnendur eru að stýra umræðum og taka viðtöl. Þeir virðast ekki vita lengur að þeir eiga að vera stjórnendur. Ef það gerist ekki af sjálfu sér að viðmælendurnir vaði yfir þá jafnt og andstæðinga sína þá hleypa stjórnendurnir umræðum jafnan upp og leyfa viðmælendum til dæmis að komast hjá því með öllu móti að svara spurningum. Þessu fylgir að engin regla er á neinum umræðum. Svarandi fær ekki tækifæri til að svara vegna þess að stjórnandi tekur fram í fyrir honum – eða öllu heldur talar ofan í hann svo enginn skilur neitt sem sagt er. Stjórnendur leyfa viðmælendum, ef fleiri eru, að tala hvorum eða hverjum ofan í annan svo engin leið er að heyra orðaskil. Baráttuaðferðir stjórnmálamannanna eru orðnar þær helstar að tala á meðan hinn segir eitthvað svo það heyrist ekki sem sagt er. 

Fyrir utan það hversu heimskulegt og vitlaust þetta er, að stýra hverjum óskiljanlegum dagskrárliðnum á fætur öðrum, þá er þetta hreinn dónaskapur og skortur á mannasiðum, sem settur er á svið oft á dag. Í fyrsta lagi er óþolandi að leyfa það að gripið sé fram í fyrir þeim sem hefur orðið. Enn dónalegra er það þegar þáttarstjórnandi gerir það við gest sinn. Og í öðru lagi er þetta handónýtt útvarpsefni. Það kemst ekkert til skila. Það er engin leið að vita hver segir hvað ef einhver segir eitthvað. Hvernig á til dæmis fólk sem hefur ekki 100% heyrn að gera sér grein fyrir því hvað sagt er í svona sirkusatriðum? Og hvers konar mynd er verið að draga hér upp af stjórnmálamönnum? Að þetta séu siðlausir dónar sem virða ekki grundvallarreglur í samskiptum manna? 

Það ætti að vera takmark í stjórnmálaumræðu, ekki síst fyrir kosningar, að koma upplýsingum til skila, og þar er hlutverk fjölmiðlanna mjög mikilvægt. En ef tíðindamenn og dagskárgerðarmenn útvarps og sjónvarpsstöðva á Íslandi halda að hlutverk þeirra sé að búa til æsing og skrípaleik, hanaslag og rifrildi um einskis verða hluti, skrumskæla veruleikann og valda áheyrendum óþægindum með allri þessari dónalegu framkomu, þá væru þeir betur komnir við önnur störf. Þetta er þeim til minnkunar. Þeir sýna ekki í verki að þeir ráði við starf sitt.


svp.is

Mér þykir rétt að taka það fram að enda þótt einstöku grein hrökklist hingað inn af og til er það eiginlega óvart. Ég skrifa reglulega á vefsetur mitt, svp.is og þar er meðal annars fjallað um mannamál, mat og matsatriði í lífi og tilveru.


Frétt úr rígisúdvarpinu

Skráði lauslega eftir framburði frétt í Ríkisútvarpinu á sjöunda tímanum í gærkvöldi:

Bush Bandarígjafossidi reynir þessa dagana að hleyba lífi í umdeildar endurbædur á löggjöf um innflydjendur vestanhafs. Talið er að um 12 milljónir íbúa Bandarígjana hafi komið þangað á ólöglegan hátt. Björn Malmquist fréttaridari Údvars segir frá:

Bush fossidi gerði ðeda að umræðuefni í ræðu sem hann hélt í dag í bænum Youma í Arisónarígi. Bærinn er staðsedur á landamærum við Mexigó og þar um slóðir er verið að byggja umdeildan vegg á landamærunum dil að hamla för ólöglegra innflydjenda til Bandarígjana. Endurbædur á löggjöf um innflydjendur hafa verið ofarlega á dassgrá fossidans en hafa fengið kuldalegar módögur af hálfu rebúbligana sem hafa til dæmis hafnað því sem þeir hafa kallað sagaruppgjöf fyrir ólöglega innflydjendur. Nú er á leiðinni tillaga frá Hvídahúsinu um heildarlöggjöf í þessum málum, fossidinn sagðist í dag ætla að afgreiða slíg lög á þessu ári.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband