Dónalæti í fjölmiðlum

Mér þykir skelfilegt að nú skuli vera hafin ein kosningahríðin enn í útvarpi og sjónvarpi. Hvar sem maður opnar þessa fjölmiðla um eða eftir vinnulok á daginn og fram yfir kvöldmat er ekki vært fyrir þessu. Stjórnmálaumræða er út af fyrir sig ekki vond eða leiðinleg, en það sem nú tíðkast á Íslandi er engin umræða um stjórnmál heldur er ævinlega reynt að halda uppi hanaslag og magna upp einhver læti og til þess eru oft notuð ómerkileg aukaatriði sem koma stjórnmálaumræðu lítt eða ekki við. 

 

Verst af öllu er þó hversu vanmegnugir tíðindamenn og þáttastjórnendur eru að stýra umræðum og taka viðtöl. Þeir virðast ekki vita lengur að þeir eiga að vera stjórnendur. Ef það gerist ekki af sjálfu sér að viðmælendurnir vaði yfir þá jafnt og andstæðinga sína þá hleypa stjórnendurnir umræðum jafnan upp og leyfa viðmælendum til dæmis að komast hjá því með öllu móti að svara spurningum. Þessu fylgir að engin regla er á neinum umræðum. Svarandi fær ekki tækifæri til að svara vegna þess að stjórnandi tekur fram í fyrir honum – eða öllu heldur talar ofan í hann svo enginn skilur neitt sem sagt er. Stjórnendur leyfa viðmælendum, ef fleiri eru, að tala hvorum eða hverjum ofan í annan svo engin leið er að heyra orðaskil. Baráttuaðferðir stjórnmálamannanna eru orðnar þær helstar að tala á meðan hinn segir eitthvað svo það heyrist ekki sem sagt er. 

Fyrir utan það hversu heimskulegt og vitlaust þetta er, að stýra hverjum óskiljanlegum dagskrárliðnum á fætur öðrum, þá er þetta hreinn dónaskapur og skortur á mannasiðum, sem settur er á svið oft á dag. Í fyrsta lagi er óþolandi að leyfa það að gripið sé fram í fyrir þeim sem hefur orðið. Enn dónalegra er það þegar þáttarstjórnandi gerir það við gest sinn. Og í öðru lagi er þetta handónýtt útvarpsefni. Það kemst ekkert til skila. Það er engin leið að vita hver segir hvað ef einhver segir eitthvað. Hvernig á til dæmis fólk sem hefur ekki 100% heyrn að gera sér grein fyrir því hvað sagt er í svona sirkusatriðum? Og hvers konar mynd er verið að draga hér upp af stjórnmálamönnum? Að þetta séu siðlausir dónar sem virða ekki grundvallarreglur í samskiptum manna? 

Það ætti að vera takmark í stjórnmálaumræðu, ekki síst fyrir kosningar, að koma upplýsingum til skila, og þar er hlutverk fjölmiðlanna mjög mikilvægt. En ef tíðindamenn og dagskárgerðarmenn útvarps og sjónvarpsstöðva á Íslandi halda að hlutverk þeirra sé að búa til æsing og skrípaleik, hanaslag og rifrildi um einskis verða hluti, skrumskæla veruleikann og valda áheyrendum óþægindum með allri þessari dónalegu framkomu, þá væru þeir betur komnir við önnur störf. Þetta er þeim til minnkunar. Þeir sýna ekki í verki að þeir ráði við starf sitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband