1.5.2007 | 11:33
SJÁLFSTÆÐ VINNUBRÖGÐ FJÓLMIÐLA
Mig langar til að birta hér tvær fréttir, hvora af sínum vefmiðlinum nú í kvöld, en um sama atvik. Á Vísi (visir.is) segir:
Kajakræðari fundinn eftir mikla leit
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í kvöld til leitar að erlendum kajakræðara sem saknað var við austari Jökulsá. Síðast sást til hans á sjötta tímanum í dag en hann hugðist róa niður ánna. Þegar hann var ekki kominn niður ánna um kvöldmatarleytið var farið að grennslast fyrir um afdrif hans. Maðurinn kom í leitirnar klukkan 21:30 í kvöld, heill á húfi er hann gekk fram á björgunarsveit.
Miklar leysingar eru á svæðinu og vatnavöxtur í ánni. Maðurinn hafði velt bátnum og týnt honum en náð að komast af sjálfsdáðum á þurrt.
Þegar hann fannst voru um 60 manns frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar við leit auk þess sem búið var að kalla út lið frá nærliggjandi svæðum sem og þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Á Morgunblaðsvefnum (mbl.is) er svo sagt frá:
Kajakræðari fannst eftir leit
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í kvöld til leitar að erlendum kajakræðara sem saknað var við austari Jökulsá. Síðast sást til hans á sjötta tímanum í dag en hann hugðist róa niður ánna. Þegar hann var ekki kominn niður ánna um kvöldmatarleytið var farið að grennslast fyrir um afdrif hans. Hann fannst heill á húfi um klukkan 21:30 í kvöld.
Maðurinn kom í leitirnar klukkan 21:30 í kvöld, heill á húfi er hann gekk fram á björgunarsveit. Hafði hann velt bátnum og týnt honum en náð að komast af sjálfsdáðum á þurrt.
Þegar hann fannst voru um 60 manns frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar við leit auk þess sem búið var að kalla út lið frá nærliggjandi svæðum sem og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Miklar leysingar eru á svæðinu og vatnavöxtur í ánni.
Nú lítur út fyrir að þetta sé verk eins höfundar, ein lítil málsgrein er færð til og greinaskil á einum stað flutt. Og þarna koma nákvæmlega sömu vitleysurnar fyrir, áin er vitlaust beygð og engu líkara en maðurinn hafi fundið björgunarsveit, þar sem hann gekk fram á hana, en hún gekk ekki fram á hann. Sem og er merkingarlaust, þýðir bara og, sennilega misskilningur eða ruglingur við svo og, sem þýðir eiginlega og einnig, eða eitthvað því líkt. Þannig má tína til eitt og annað. Svo er þetta bara afskaplega lasburða texti og máttleysislegur. En dálítið undarlegt að þetta skuli vera svona óskaplega eins hjá þessum vefmiðlum sem sagðir eru í samkeppni. Skyldu þeir hafa sameiginlega samkeppnisfréttamenn?
Athugasemdir
Ótrúlegt !
Eiður Svanberg Guðnason, 1.5.2007 kl. 22:17
Sæll vertu:
Eg lagðist í rannsóknarblaðamennsku og í ljós kom að báðir vefmiðlarnir hafa stytt sér leið og hreinlega afritað heimasíðu Landsbjargar! Þar er frétt sem mér sýnist kunnugleg:
30.04 | Leit í austari JökulsáBjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í kvöld til leitar að erlendum kajakræðara sem saknað var á austari Jökulsá. Síðast sást til hans á sjötta tímanum í dag og þegar hann var ekki kominn niður ánna um kvöldmatarleytið var farið að grennslast fyrir um afdrif hans. Miklar leysingar eru á svæðinu og vatnavöxtur í ánni.
Maðurinn kom í leitirnar klukkan 21:30 í kvöld, heill á húfi. Þegar hann fannst voru fimm hópar björgunarsveitafólks frá Flugbjörgunarsveitinni í Varmahlíð og Björgunarsveitinni Strákum við leit auk þess sem búið var að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Með öðrum orðum, fyrrum kollegar mínir (og Eiðs Svanbergs!) nota nú bara afritunartæknina og hirða ekki einu sinni um yfirlestur á því sem fyrir verður! Hallærislegra verður það nú tæplega....
Atli Rúnar Halldórsson, 1.5.2007 kl. 22:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.